Vertu Úlfur! – Mæli með

Vertu Úlfur

Þessi frábæra sýning sem sýnd er í þjóðleikhúsinu hefur svo sem ekki farið undir radarinn hjá mörgum eins og sýnir sig í ásókninni,en ef þú ert ekki búin/nn að fara að sjá hana þá mæli ég svo sannarlega með að þú drífir í því, vegna þess að hér er um að ræða sýningu sem situr eftir í hausnum á manni og hefur áhrif.

Þessi sýning situr svo sannarlega í hausnum á mér ennþá enda tengdi ég við margt í henni eins og flest allir held ég að geti gert. Það sem situr hvað sterkast eftir hjá mér er þessi leit okkar allra um samþykki, við erum alltaf að leitast eftir því að vera samþykkt og samfélagið vill setja stimpil á alla til að útskýra þá svo það sé mögulega auðveldara fyrir okkur að samþykkja þá aðila.

Ég held að við þurfum alltaf að leitast eftir því að samþykkja okkur sjálf eins og við erum, það er ekki fyrr en að við höfum gert það sem við getum byrjað að lifa lífinu á eigin forsendum án þarfarinnar fyrir samþykki annarra.

Við erum öll að eiga við einhverja kvilla,áföll,raskanir og enginn er fullkomin/nn um leið og við viðurkennum það fyrir okkur sjálfum þá getum við farið að vinna með það og haldið áfram að vaxa.

Það sem ég hef farið að hugsa eftir þessa sýningu er að sem foreldri þá er í raun mitt eina hlutverk að samþykkja börnin mín eins og þau eru svo að þau upplifi öryggi með sig og finni fyrir ást og öryggi, því í grunnin virðast flest vandamál sem fullorðnir einstaklingar eiga við tengjast því á einhvern hátt að þau upplifðu óöryggi og það að vera ekki alveg samþykkt eins og þau voru sem börn.