Vald vigtarinnar

Vigt

Að stíga á vigt getur verið ansi afdrifarík ákvörðun ef talan sem birtist er ekki sú sem við viljum sjá. Margir hafa þann vana að stíga á vigt á morgnana, einu sinni í viku, einu sinni í mánuði og þar fram eftir götunum. Ég sjálfur hef tekið ýmis tímabil þar sem ég hef t.d. Prufað að vigta mig daglega, vikulega, mánaðarlega nú eða bara látið vigtina vera í marga mánuði.

Um daginn gerði ég þau afdrifaríku mistök að stíga á vigtina. Afhverju voru það mistök? Jú, ég var búinn á æfingu, mér leið vel í skrokknum, ég var sáttur þegar ég horfði í spegil og fannst ég bara nokkuð léttur á mér – það breyttist þegar talan á vigtinni sýndi mér ekki þá tölu sem ég hélt ég myndi sjá! Allt í einu fannst mér ég ekki léttur á mér, ég var ekki sáttur þegar ég horfði í spegil og hugsaði hvaða fals hugmynd ég hafði eiginlega haft þegar vigtin sýndi greinilega eitthvað annað.

Þetta fékk mig til að hugsa. Afhverju breytti þessi tala því hvernig mér leið á þessari stundu? Að stíga á vigt á ekki að stjórna því hvernig okkur líður. Talan sem birtist gefur okkur mynd af því hversu mörg kíló við erum en segir bara alls ekki alla söguna. Ef við erum t.d. búin að æfa vel og bæta á okkur vöðvum þá er ekkert óeðlilegt að vigtin fari aðeins upp, vöðvar eru þyngri en fita, við getum vel losað okkur við helling af centimetrum en bætt við okkur í grömmum á móti. Venjuleg baðvigt gefur okkur tölu en segir enga sögu. Ef við viljum endilega fylgjast með einhverjum tölum þá er um að gera að fara í mælingu og sjá þar hvernig okkar raunverulega ástand er. Svo getum við farið í það að breyta um lífsstíl og eftir x tíma mælt okkur aftur og þá fáum við tölur sem segja sögu.

Mitt viðhorf breyttist þennan dag og ég ákvað að láta einhverja baðvigt úr elko ekki ráða því hvernig dagurinn minn byrjar.

Pistill af www.thjalfamig.is