Eru samfélagsmiðlar að veita þér ánægju?

Fyrir nokkrum vikum ákvað ég að hvíla Instagram í viku. Instagram er sá samfélagsmiðill sem ég nota hvað mest og eyði skammarlega miklum tíma í. Ég byrjaði aldrei á Tiktok (því ég er sjötug í anda 💩), fer sárasjaldan inn á Facebook og nota Messenger og Snapchat til þess að eiga samskipti við vini og vandamenn. Sá miðill sem ég þurfti því mest á að halda að hvíla var Instagram.


Ástæðurnar fyrir því að ég ákvað að taka smá pásu eru tvær. Í fyrsta lagi tekur Instagram allt of mikinn tíma og athygli frá mér. Í dag nota ég Instagram mest til þess að deila blogginu mínu og nýjum færslum og ég legg tíma og vinnu í að búa til content í kringum það. Eðlilega nota ég appið þá meira en ég gerði en þar fyrir utan er ég aaaaalltaf að skoða þetta blessaða app, sama hvað ég er að gera. Þegar ég borða, á fyrirlestrum í skólanum, þegar ég horfi á sjónvarpið og á klósettinu. Það getur ekki verið heilbrigt.

Í öðru lagi þá langaði mig að skoða hver áhrifin yrðu á sjálfa mig og andlega líðan. Ég hafði grun um að þessi vika án Instagram myndi leiða ýmislegt í ljós svo lengi sem ég væri vakandi fyrir því.


Líkt og ég bjóst við þá gerði þessi vika mér heilmikið gott. Hér að neðan eru þau atriði sem ég tók helst eftir:

Meiri athygli. Ég dett mjög oft út í löngum fyrirlestrum í skólanum en þegar truflunin var einfaldlega ekki til staðar þá hélst athyglin mun lengur.

Minni kvíði. Miklu minni í rauninni og það kom mér mest á óvart en hefði kannski ekki átt að gera það. Instagram hefur sennilega meiri áhrif á mig en ég áttaði mig á.Ég kom meira í verk. Enginn sjokker þar. Ég batt miklar vonir við að það myndi gerast! Ég áttaði mig betur á hvernig ég vil nota Instagram og hverju ég vil deila með ykkur þar.Ég missti nákvæmlega ekki af neinu. Þið vitið, svona í grundvallaratriðum.

Hvort sem notkun samfélagsmiðla sé „vandamál“ eða ekki þá held ég að það sé hollt að spyrja sig stöku sinnum hvað þeir gefi okkur og hvort þeir séu að valda okkur vanlíðan eða hamingju. Ég elska Instagram. Elska að búa til content, elska að sjá content hjá þeim sem ég fylgi og fá innblástur. Samfélagsmiðlar eru nefnilega algjör snilld en líkt og með flest annað er ágætt að vera meðvitaður um að missa sig ekki í gleðinni.

Eftir þessa viku ákvað ég að stilla á time-limit á Instagram í símanum. Þá næ ég vonandi að halda inni öllu því góða sem Instagram gefur mér og lágmarka það „slæma“ <3

-Sesselía


*Færslan var upphaflega birt á sesseliadan.com