Bóka meðmæli: Women don´t owe you pretty

book title

ÞVÍLÍK OG ÖNNUR EINS BÓK

Ég byrjaði árið á að lesa bókina Women Don’t Owe You Pretty eftir Florence Given og VÁ – Geggjuð byrjun á 2021. Þessi bók er sú allra besta sem ég hef lesið (hingað til) og sú bók sem ég hef lært mest af. Sorry allar hagfræðibækur sem ég hef lesið undanfarin tvö ár, þið eigið ekki séns í Women don’t owe you pretty.

Bókin kom út síðasta sumar og var ekki lengi að verða bestseller hjá The Sunday Times margar vikur í röð. Skiljanlega.

Höfundur bókarinnar, Florence Given, er 22 ára (jafnaldra mín?!) aktívisti, áhrifavaldur, listakona og rithöfundur sem notar sinn vettvang til þess að vekja athygli á úreltum viðhorfum til kvenna, kynhneigð, kynþáttum, forréttindum og kyni. Það gerir hún einnig í bókinni og svo mikið meira.


Á fyrstu blaðsíðum bókarinnar var ég búin að læra meira um femínisma, forréttindi og feðraveldið en ég hafði á allri minni ævi. Fyrir hélt ég að ég væri nokkuð sjóuð í þeim efnum en komst fljótt að því að svo var ekki.

Ég neyddist til þess að endurskoða ýmsar ákvarðanir og skoðanir, kanna hvaðan þær koma og hvað hvetur þær áfram. Endurskoðun getur verið óþægileg en þegar uppi er staðið er hún nauðsynleg og holl fyrir sálina. Endurskoðun er undirstaða áframhaldandi vaxtar og þroska eins og Florence vinkona mín segir.
Í fyrstu köflum bókarinnar, þar sem áherslan er lögð á þau skilaboð sem konum eru gefin frá umheiminum, hugsaði ég mikið til unglingsins Sesselíu. Litlu Sesselíu sem gerði allt til þess að líta vel út, ekki fyrir sjálfa sig heldur stráka.

Sesselíu sem var á barmi átröskunar, grét sig í svefn og gat ekki með nokkru móti skilið hvers vegna allar vinkonur hennar ættu kærasta en ekki hún. Hún hlyti einfaldlega að vera ljót, ekki nógu mjó og með of lítil brjóst. Þegar ég lít til baka langar mig að taka utan um aumingja Sesselíu sem misskildi heiminn svona innilega.

Hún misskildi heiminn vegna þess að mörg þau skilaboð sem hún fékk frá umheiminum voru að hennar hlutverk væri að vera sæt og góð fyrir karlmenn.

Þannig myndi henni vegna vel í lífinu. Skilaboð sem stelpur fá því miður enn í dag en eru tækluð á svo magnaðan hátt í bókinni.
Í dag myndi ég vilja segja 14 ára Sesselíu að einn daginn yrði þetta öðruvísi. Einn daginn yrði henni drullusama um álit annara, sérstaklega álit karlmanna. Einn daginn yrði henni drullusama um hvort hún væri nógu mjó eða ekki. Ég myndi segja henni að virði hennar felist ekki í útlitinu eða áliti annarra. Virði hennar felist í hvernig hún kemur fram við sjálfa sig og aðra. Myndi kannski bæta því við að einn daginn kæmi líka að því að hún myndi eignast kærasta og þann allra, allra besta. Ekki að það hafi verið markmiðið, óvænt ánægja öllu heldur og ég er voða lukkuleg með hann Gunna minn <3

Í grófum dráttum þá fannst mér bókin vera ákveðin leiðarvísir að auknu sjálfstrausti, betri samskiptum við aðra og betra sambandi við mig sjálfa. Hún kennir manni að setja mörk og standa við þau, hætta að spá í hvað öðrum finnst og að þú ert ástin í þínu eigin lífi. Valdeflandi bók á alla vegu. Ég er sannfærð um að hún hafi breytt lífi mínu til hins betra. Dramatískt? Mögulega, en þið skiljið um leið og þið lesið bókina.
Ég mæli með henni fyrir alla óháð kyni en þó sérstaklega fyrir konur.
Eða eins og Florence orðar svo snilldarlega:

„This is the book I wish I could have whacked myself over the head with before the world’s toxicity permeated its way into my life“.

-Sesselía

*Færslan var upphaflega birt á sesseliadan.com